Hvers vegna almennar aðgerðir fyrir heimilinn

Mikið er nú rætt um aðgerðir, eða réttara sagt aðgerðaleysi, ríkisstjórnarinnar í málefnum heimilanna. Auðvita er mönnum er heitt í hamsi og nú hafa einhverjir staðið upp og byrjað að mótmæla. Þetta eru merkileg mótmæli frá mínum bæjardyrum séð; þrátt fyrir eðlislægt ónæmi fyrir hópefli og fjöldasamkomum þá gæti ég vel hugsað mér að mótmæla óréttlætinu í lánaviðskiptum hér á landi.

Byrjum á verðtryggingunni.

Grundvallarregla í heilbrigðum lánaviðskiptum er að hafa tekjur og skuldin séu í sama gjaldeyri. Áhættan sem felst í gengissveiflunum þegar þessi regla er brotin þýðir einfaldlega að slík lán eru stórhættuleg. Íslendingar og margar þjóðir Austur Evrópu hafa nýverið fengið sársaukafulla kennslustund í þessu grundvallaratriði, sömu kennslustundina og Rússland, mörg ríki Suð-Austur Asíu, Mexíkó og Argentína og fleiri þjóðir hafa gengið í gegnum síðastliðna tvo áratugi.  

Eins undarlegt og það nú er þá stendur ríkið í vegi fyrir því að þessi regla sé höfð í hávegum hér á landi. Verðtryggingin þýðir í raun að skuldir almennings eru ekki í sama gjaldmiðli og tekjurnar. Skuldin hækkar í samræmi við verðbólgu á meðan tekjurnar standa í stað. Þetta er einfaldlega út í hött. Allir ábyrgir foreldrar myndu ráðleggja börnum sínum að fylgja reglunni samviskusamlega, en hér setur ríkið fólki stólinn fyrir dyrnar og neyðir almenning til þess að taka óábyrga og stórhættulega áhættu.

Reynsla Íslendinga af verðbólgu í gegnum árin og ótal dæmi erlendis frá, hefðu átt að kveikja á perunni hjá öllum þeim velmenntuðu og launuðu sérfræðingum sem fara með þessi mál hér á landi, en það er eins og einhverskonar “fagleg blinda” hafi hrjáð íslenska sérfræðinga undanfarin ár.

Ríkinu ber að gæta hagsmuni almennings en framferði hins opinbera í þessu málin jafnast á við að ríkið myndi banna öryggisbelti. Fólk þarf að vera ansi forhert ef það sér ekki í dag hversu hættulegt það er að brjóta þessa reglu. Ríkið hefur með verðtryggingunni brotið gegn almenningi og þess vegna ber því að afnema verðtrygginguna strax og leiðrétta aftur í tímann.

“Flatskjásskýringin”

Margar furðulegar skýringar á hruninu hafa heyrst undanfarið. Ótrúlega algengt er að persónugera vandann og skrifa hrunið á græðgi, siðspillingu og aðra skapgerðagalla. Að mínu mati er þetta meira og minna vitleysa; auðvita getur fólk verið gráðugt og siðspillt, rétt eins og það getur verið forsjált og réttsýnt, en mikilvægast er að fólk er ekki betra en umhverfið sem það tilheyrir. Það sem farið hefur fram hjá nær öllum er að umhverfið var klikkað og vitlaust. Hrunið hér á landi sem og erlendis er fyrst og fremst kerfishrun, en það kerfi sem lá fjárhagslegu umhverfi okkar til grundvallar var einfaldlega vitlaust og ýtti undir vitlausa hegðun.

Það er þó hægt að hafa skilning á því þegar fólk blótar græðgi bankastjóra og útrásarvíkinga, en þegar þessi skýring er yfirfærð á almenning keyrir vitleysan um þverbak. Þessi skýring hefur verið kölluð “Flatskjásskýringin” en skv. henni er hrunið afleiðing neyslugræðgi og óráðsíu almennings sem fyrir vikið á skilið að sitja í skuldasúpunni. Flatskjásskýringin hefur helst verið haldið á lofti af talsmönnum Samfylkingarinnar sem jafnframt eru helstu varðhundar verðtryggingarinnar.

Fyrir það fyrsta þá voru allar íslenskar hagtölur í góðærinu komnar út fyrir allan þjófabálk í samanburði við aðrar þjóðir (sbr. gengisskráning krónunnar, skuldastaða þjóðarbúsins, stærð fjármálakerfisins, vöruskiptahalli o.s.frv.). Ein af örfáum undartekningum frá vitleysunni voru fjármála heimilanna. Þótt skuldir almennings sem hlutfall af ráðstöfunartekjum hafi vissulega verið miklar árið 2007 voru þær engu að síður í samræmi við Bretland, Bandaríkin og Danmörk svo dæmi séu tekin.

Þá ber að athuga að skuldir heimilanna eru fyrst og fremst í íslenskum krónum (um 75%) en ekki í erlendum gjaldeyri eins og skuldir fyrirtækjanna. Að þessu leyti ættum við að vera betur stödd en t.d. margar þjóðir Austur Evrópu þar sem húsnæðisbólan var drifin áfram af lánum í evrum og svissneskum frönkum. Verðtrygging gerir það hins vegar að verkum að verðtryggð lán eru álíka hættuleg (ef ekki hættulegri) og lán í erlendri mynt.  Þetta er sér-íslenskt sjálfskaparvíti og hreint og beint ótrúlegt ef við ætlum að láta fjármál heimilanna brenna upp í þessari vitleysu. 

Flatskjár, gasgrill og nýir bílar eru ekki ástæða hrunsins – not by a long shot. Heimlin eru fórnarlömb vitleysunnar en ekki gráðugi úlfurinn.

Af hverju aðgerðir?

Rökin sem ég hef talið upp hér að ofan eru aðallega réttlætis- og sanngirnisrök, en það má líka efnahagslegrök fyrir því að ráðist sé í almennar aðgerðir eins og niðurfellingu skulda.
 
Sú staðreynd að skuldir almennings eru íslenskum krónum gerir það að verkum að hið opinbera hefur mun meiri möguleika á að endurskipuleggja skuldastöðu heimilanna heldur en fyrirtækjanna. Ríkið eða seðlabankinn (eða ríki sérfræðinganna réttara sagt) getur t.d. prentað krónur til þess að kaupa íslensku húsnæðisbréfin af Íbúðalánasjóði, bönkunum og lífeyrissjóðunum.

Þegar hagkerfi standa frammi fyrir jafn gríðarlegum samdrætti og það íslenska gerir nú er það viðurkennd hagfræði að beita ríkinu til þess að halda uppi eftirspurn í hagkerfinu. Venjulega er þetta gert annað hvort með mótvægisaðgerðum – ríkið ræðist í (atvinnuskapandi) fjárfestingar og viðhaldsaðgerðir – eða skattalækkunum. Eins skrítið og það nú er þá hefur ekkert af þessu verið í umræðunni hér á landi. Aðalástæðan er sú að skuldirnar sem lenda á ríkinu vegna bankahrunsins eru svo miklar að slíkar aðgerðir eru ekki taldar mögulegar (venjulega er þessar leiðir sagðar lokaðar þeim þjóðum sem skulda meir en 60% af VLF).

Niðurfærsla skulda gerir í raun sama gagn. Þ.e. heimilin munu hafa meira milli handanna og þannig helst eftirspurnin í hagkerfinu uppi. Hér er gott að hafa í huga að einkaneysla stendur fyrir 54% af landsframleiðslu Íslands og því er til mikils að vinna. Það er til lítils að rembast við að halda fyrirtækjunum á lofti með endalausum sértækum aðgerðum og fyrirgreiðslum þegar rekstrargrundvöllurinn – eftirspurnin – er horfin.

Meira síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlédís

Mjög góður pistill hjá þér Kristján Torfi! 

Hef engu við að bæta og ekkert að draga frá

Hlédís, 12.5.2009 kl. 11:52

2 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Það er hálf hjákátlegt til þess að hugsa að "vernda lífeyrissjóðina/almannatryggingakerfið" með verðtryggingu þegar allar vísbendingar eru í þá átt að þeir komi ekki til með að eiga fyrir lífeyrisskuldbindingum vegna vísitölutengingar atvinnuleysisbóta, sem eru 10 sinnum hærri hér en í Póllandi.

Ég veit ekki hve lengi þetta kerfi heldur út en veit að venjulegt fólk getur ekki haldið því uppi, hvorki með iðgjöldum né sköttum, nema í mjög stuttan tíma. Þá er ekki verið að tala um þrjú ár, frekar eitt til tvö. Niðurfelling höfuðsstóls um 20%, eða verðbólgan síðasta árið eða svo, skiptir engu máli fyrir lífeyrissjóðakerfið. 40 ára endurgreiðsla á slíku láni kallar fram meiri launahækkanir í framtíðinni til að standa undir greiðslunni. Þá er spurninginn hvort er betra að fara út í búð og kaupa mjólk á 100 kr. og vera með 200 þús. í laun eða kaupa hann á 200 kr. og vera með 400 þús. í laun. 

Aðhald í peningamálum verður alltaf lánveitandans. Ef hann gæti séð fram á tap mun hann ekki lána, svo einfallt er það. Verðtrygging skekkir þessa dómgreind.

Sindri Karl Sigurðsson, 12.5.2009 kl. 22:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband