Við erum í ESB - það er vandinn

Samhljómur er ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar maður hlustar á stjórnmálamenn þessa dagana. Um eitt virðast þó allir sammála: Núverandi stefna í efnahagsmálum - ofurháir vextir, verðtrygging og gjaldeyrishöft - er brjálæði. 

Þrátt fyrir þessa breiðu samstöðu þá er núverandi stefna staðreynd og ekkert hefur verið gert til að breyta um kúrs. Þetta er meira en lítið skrítin staða. Seðlabankinn er ennþá á verðbólgumarkmiði þótt það sé óumdeilt að sú stefna hafi komið okkur í vandræðin. Gjaldeyrishöftin eru ekkert á förum þótt öllum sé ljóst að óréttlætið og óhagkvæmnin sem hlýst af tvöfalt skráðu gengi er ólíðandi. Um næstu mánaðarmót munu svo verðbætur leggjast ofan á húsnæðislánin þótt verðtryggingin hafi rústað fjárhag heimilanna svo að óbreyttu stefnir hér í fjöldagjaldþrot og hrun húsnæðismarkaðar. 

Hvað veldur þessari þversagnakenndu stöðu?

Auk þessa að vera sammála um óbærilega vitleysu núverandi efnhagsstefnu eru stjórnmálamenn einnig sammála um að til skamms tíma sé AGS eina leiðin úr ógöngunum (Þeir sem leyfa sér að fara út fyrir þennan ramma eru umsvifalaus dæmdir úr leik sem kverúlantar, samsæriskenningasmiðir eða eitthvað þaðan af verra). Þá er meirihluti þingmanna ríkisstjórnarflokkanna einnig þeirrar skoðunar að eina lausnin til lengri tíma sé ESB. (það er kannski til marks um takmarkaða hugsun íslenskra pólitíkusa að þeir sjá aðeins lausnir sem hægt er að skammstafa).

Þegar betur er að gáð er samband þarna á milli, þ.e. milli núverandi efnahagsstefnu (fylgispekt við AGS) og áætlana um að ganga í Evrópusambandið. Þegar við skoðum framgang mála í Evrópusambandinu blasir við að margt er líkt með stefnunni sem er lögð fyrir Ísland annars vegar og hins vegar fyrir lítil ríki innan ESB sem líka hafa orðið illa úti í fjármálakreppunni.

Hver er munurinn á Íslandi og Írlandi? Einn stafur og sex mánuðir. Þannig hljómaði brandarinn fyrir nokkrum mánuðum, en í dag eru Írar sennilega hættir að brosa því brandarinn hefur reynst sannspárri en efnahagsspár írskra stjórnvalda. Írar hafa neyðst til að þjóðnýta einn stærsta banka landsins og ört vaxandi líkur eru á því að bankakerfið í heild fari sömu leið. Húsnæðismarkaðurinn er hruninn og nú er því spáð að landsframleiðsla dragist saman um allt að 10% (þröskuldurinn sem hagfræðingar segja að skilji á milli niðursveiflu og kreppu). Írland er í vondum málum rétt eins og Ísland. Fyrir hálfu ári síðan lofaði írski forsætisráðherrann guð fyrir að Írar hefðu evru því annars væri jafn illa fyrir þeim komið og Íslendingum. Þetta gætu hins vegar auðveldlega orðið "famous last words" - allavega hefur ástandið versnað dag frá degi síðan hann lét þau falla og ekki sér fyrir endann á vandræðunum. 

Og hver hafa viðbrögð stjórnvalda (og ESB) við írsku kreppunni verið. Í síðustu viku kynnti írski fjármálaráðherrann nýtt fjárlagafrumvarp sem hlotið hefur heitið "the budget from hell". Niðurskurður er boðaður í öllum liðum; atvinnuleysisbætur til ungs fólks verða skornar niður sem og barnabætur o.s.frv. Skattar verða hækkaðir og dregið verður úr opinberum framkvæmdum. Það var nefnilega það. Á sama tíma og efnahagslífið hefur orðið fyrir stórkostlegu áfalli og fyrirséð að eftirspurn í samfélaginu muni hrynja þá ætlar ríkið að herða sultarólina og hækka skatta. Hljómar kunnuglega? Á Írlandi (auk Lettlands og PIGS-landanna) ríkir nú verðhjöðnun sem þýðir að raunvextir fara hratt hækkandi, en eins og við þekkjum hér á Íslandi þá eru háir vextir grundvallaratriði í peningastjórn skv. verðbólgumarkmiði og í ráðleggingum AGS. Hvorki Ísland né Írland mega grípa til þeirra ráða sem Bandaríkin og Bretland hafa notað til þess að ná vaxtastiginu niður. 

Sömu sögu er að segja frá Lettlandi en hvað eiga þessi þrjú ríki - Ísland, Lettland og Írland - sameiginlegt? Jú, ESB.

Þótt við séum ekki aðilar að Evrópusambandinu stefnir meirihluti þingmanna ríkisstjórnarinnar (og starfsmanna stjórnsýslunnar) þangað inn. Ef markmiðið er aðild þá verða stjórnvöld að sýna að þau séu tilbúinn að ganga undir "aga" sambandsins eða Maastricht skilyrðin svokölluðu. Ég hef átt í viðræðum við jafnaðarmenn sem segja að innganga okkur muni krefjast fórna (sjá jbh.is). Hvernig er er hægt að skýra linkindina í Icesave-deilunni öðruvísi en að þar hafi stjórnvöld ekki vilja styggja ESB og eyðileggja möguleika okkar á skjótri inngöngu. Við erum ekki enn gengin í Evrópusambandið en við fylgjum stefnu Evrópusambandsins.    

Hvað er athugavert við stefnu ESB? Ef menn vilja finna fordæmi í sögunni um fjármálakreppu eins og þá sem við glímum nú við verða menn að fara aftur til Kreppunnar miklu. Skv. hagfræðinginum Irvin Fisher (þetta er líka ríkjandi skoðun meðal nútíma hagfræðinga eins og Ben Bernanke) þá var Kreppan mikla afleiðing svokallaðrar skuldaverðhjöðnunar (e. debt deflation) sem orsakaði vítahring minnkandi eftirspurnar í efahagskerfinu. Það sama er að gerast í Evrópusambandinu í dag. (Ef menn vilja lesa meira um þetta þá bendi ég vinstrimönnum á blogg Paul Krugmans á NYT og hægrimönnum á pistla Ambrose Evans-Pritchard á Telegraph). Óbilandi trú Evrópska Seðlabankans á verðbólgumarkmiðið minnir óþægilega mikið á þrákelkni seðlabanka Evrópu við gullfótinn í árdaga kreppunnar miklu. 

Þorsteinn Pálsson, Benedikt Jóhannesson, Ólafur Stephensen og Sigurður Már Jónsson eru allir á einu máli um að hér stefni að óbreyttu í annað hrun. Og ég er þeim fullkomlega sammála; þegar gríðarlegur samdráttur í fjárfestingum atvinnulífsins, einkaneyslu heimilanna og útgjöldum ríkisins á sér stað samtímis þýðir það ekkert annað en algjört hrun eftirspurnar í hagkerfinu. Þessir þungavigtarmenn telja hins vegar allir að "eina" lausnin felist í inngöngu í ESB. Hér er ég fullkomlega ósammála, enda ákveðin þversögn fólgin í þessari skoðun: Við fylgjum í einu og öllu stefnu ESB og það er hún sem felur í sér annað og meira hrun.

Þvert á móti er verkefnið að komast út úr Evrópusambandinu og þeirri stórhættulegu efnahagsstefnu sem þar er nú rekin. Við eigum frekar að horfa vestur um haf til ríkisstjórnar Obama sem beitir nú öllum tiltækum ráðum til þess að ná niður vöxtum og halda uppi eftirspurn í hagkerfinu. Við eigum að lækka vexti, láta seðlabankann fjármagna fjárlagahallann (ekki taka erlend lán) og kaupa skuldir í íslenskum krónum til afskrifta. Leyfa genginu að falla og finna sinn botn og efla innlenda framleiðslu. Þær þjóðir sem komu best út úr Kreppunni miklu voru þær sem viðurkenndu vandann, sögðu skilið við úrelta hugmyndafræði og létu gjaldmiðla sína falla. Íslendingar voru ekki svo lánsamir þá og við megum ekki endurtaka sömu mistökin


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er margt til í þessari greiningu, en þá vaknar stóra spurningin: Hvernig komumst við úr skjóli/skugga AGS fyrst við erum komin í það/hann? Leiðin sem var farin var kannski ekki rétt en hvernig snúum við því við?

Ög önnur (tæknilegri) spurning: Hvernig mun það virka að kaupa skuldir í íslenskum krónum til afskrifta?

Sverrir (IP-tala skráð) 23.4.2009 kl. 16:18

2 Smámynd: Kristján Torfi Einarsson

Takk fyrir innlitið,

Hvernig komust við úr skjóli/skugga AGS? Er það ekki einfalt mál. Við afþökkum kurteisislega ráðleggingar þeirra og til byrja með getum við lækkað vexti. 

Að láta seðlabankann kaupa skuldir í íslenskum krónum til afskrifta. Þetta var kannski ekki nægilega skýrt orðað hjá mér, en hugmyndin er sú sama og þegar seðlbankar fjármagna hallann á ríkissjóði með því að kaupa ríkisskuldabréf. Seðlabankar eru nefnilega merkileg fyrirbæri: Þeir geta prentað peninga. Seðlabankinn getur þannig prentað peninga og keypt húsnæðisbréf af Íbúðalánasjóði og bönkunum. Ingólfur hjá spara.is lýsti þessu ágætlega í Silfrinu um daginn.  

Kristján Torfi Einarsson, 23.4.2009 kl. 17:10

3 identicon

Ánægður með þetta framtak þitt! Góð grein. Sammála.

En umræðan hér á skerinu er á þessum nótum:

1. Krónan er ónýt. Af því hún nýtur ekki traust. Gjaldmiðill er tæki og tækið okkar, krónan, er ekki að virka (er fullyrt) Hún hefur misst traustið á alþjóðavettvangi. Því þurfi að skipta um gjaldmiðil. Að öðrum kosti fáum við ekki fjárfesta með peninga inn í landið osfrv.

2. Ef við borgum ekki skuldir þá verður okkur úthýst á aljóðavettvangi (les. ESB) og það er voða vont að vera úti í kuldanum með engin föt eða annað skjól. EES samningur þá í uppnámi. Lánalínur til Seðlabanka munu þurrkast út osfrv.

3. Það er betra þegar maður er lítill og á erfitt að vera í klubbi með hinum stóru, þó svo þeir eigi líka erfitt, því klúbburinn sér um sína. Því er nauðsynlegt að ganga í ESB.

Á þessum nótum er umræðan og hún er þrungin tilfinningum, aðallega hræðslu og óvissu!. Á okkur sem eru ekki hlynnt ESB inngöngu standa öll spjót um að hvað eigum við að gera annað? En meira svona.   

Teitur (IP-tala skráð) 23.4.2009 kl. 22:23

4 identicon

Flott grein Kristján.

Ertu með svar við fullyrðingunum sem Teitur birti?

Arnar (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 00:46

5 identicon

Frábær grein! En þú verður að svara Teiti...

Brynhildur (IP-tala skráð) 30.4.2009 kl. 11:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband