Stærsti ókostur ESB: Óvissa

Rakst á þetta ágæta framtak á bloggvafri mínu um daginn. Eyjubloggarinn Hallgrímur Óskarsson hefur tekið saman lista um kosti og galla ESB aðildar og í athugasemdarkerfinu hafa vaknað ágætis rökræður um flokkunina. 

Í fljóti bragði sýnist mér listinn endurspegla ágætlega helstu atriðin sem haldið er á lofti í umræðunni um ESB. Eitt fannst mér þó vanta tilfinnanlega, en það er atriðið sem mér finnst skipta mestu máli í spurningunni um hvort við eigum að sækja um aðild í dag.

Fyrstu fjórir kostir ESB (af 10 kostum) sem Hallgrímur telur upp eru eftirfarandi: 

1. Bætir ímynd Íslands erlendis um traust og stöðugleika

2. Stöðugra efnahagsumhverfi, lægri vextir og engar verðtryggingar

3. Stöðugur gjaldmiðill (evran) - Ekki hægt að "ráðast" á hann. Lægri myntkostnaður

4. Góðar líkur á lægra og stöðugra verðlagi vegna lægri vaxta og stöðugri efnahags

Áður en lengra er haldið þá tek ég fram að ég er mjög skeptískur gagnvart því sem venjulega er kallað "kalt hagsmunamat". Menn gleyma iðulega hversu gríðarlegar takmarkanir eru á útreikningum á kostum og göllum. Fyrir það fyrsta veit enginn nákvæmlega hvaða verðmæti eiga að liggja matinu til grundvallar; eru það peningar og nytjar eða lífsgæði og hamingja (og hvað nákvæmlega merkja þessi hugtök)? Mannheimar eru líka ótrúlega flókið skipulag sem við skiljum ekki nema að mjög litlu leyti - mjög lítil breyting getur haft miklar og ófyrirsjáanlegar afleiðingar o.s.frv.  

Óvissan er venjulega miklu meiri en sérfræðingar láta í veðri vaka þegar þeir kynna hagsmunaútreikninga sína í línu- og súluritum. Það er þægilegt og veitir öryggiskennd að hafa tölur í hendi og telja sig þar með skilja heiminn, en oftar en ekki er fólk að blekkja sig og skapa falskt öryggi. Ef einhver lexía er fólgin í hruni fjármálakerfisins þá er hún að útreikningar blekkja.

Hagsmunaútreikningar, sér í lagi hagfræðirannsóknir, eru líka því marki brenndir að þeir gera ráð fyrir stöðugum heimi og taka lítið tillit til breytinga í tíma. Maðurinn lærir af reynslunni og gerir ráð fyrir að það sem gerðist í gær og fyrradag muni gerast aftur á morgun. En einn daginn gerist eitthvað óvænt og reglan fellur um sjálfa sig. Hrun fjármálakerfisins er einmitt slíkur dagur.  Eftir lengsta hagvaxtarskeið sögunnar blasir við meiri samdráttur en elstu menn muna - og hafa þeir nú upplifað ýmislegt um dagana. 

Sagan segir okkur að slíkar niðursveiflur hafa í för með sér miklar breytingar á samfélaginu og óvissan er því meiri en áður. Á fáum stöðum er þetta jafn augljóst og í Evrópu. Kostirnir sem Hallgrímur telur upp eru vissulega til staðar þegar menn bera saman Ísland og Evrópusambandið síðastliðin ár (raunlaun hækkuðu miklu hraðar hér árin á undan) að ég tali ekki um síðastliðið hálft ár. En þetta tímabil er aðeins lítið augnablik í sögunni. Óvissan blasir við þegar við horfum fram veginn.

Hér eru tveir stærstu þættirnir sem hvað mest óvissa ríkir um í ESB: 

Bankakerfið: Fjármálahrunið hófst í Bandaríkjunum og margir álíta því að vandræði bankakerfisins séu mest þar. Þetta er mikill misskilningur. Hlutdeild evrópska bankakerfisins í landsframleiðslunni hefur stækkað meira en hlutdeild bandaríska bankakerfisins. Skuldastaða evrópska bankakerfisins er tvöfalt verri en í BNA þegar miðað er við gírunarhlutföll (leverage) (ESB 1:61, BNA 1:30). Efnahagsreikningur evrópskra banka er að minnsta kosti jafn illa útleikinn og sá bandaríski vegna eitraðra veða og útlána. Það sem verra er, ESB bankarnir hafa ekki mætt tapinu nema að mjög litlu leyti (17%) á meðan BNA bankarnir eru langt komnir í hreinsuninni.

Skv. IMF voru bankar BNA búnir að afskrifa 510 milljarða dollara í árslok 2008 á meðan ESB bankar afskrifuðu 154 milljarða. Á næsta ári áætlar IMF að BNA bankar þurfi að afskrifa 550 milljarða árið 2009 og ESB bankar 750 milljarða (tölurnar eru miklu verri ef bresku bankarnir eru teknir með í úrteikningin fyrir ESB).  

Ólíkt BNA er engin áætlun til í ESB um hvernig á að bregðast við þessu tapi. Starfsemi bankanna þvert á landamæri ESB skapa gríðarleg pólitísk vandræði (eins og Íslendingar þekkja þjóða best, sbr. Icesave) og flækir málið óendalega mikið. Þessi óvissa hefur gert það að verkum að hinn gallharði evru- og Evrópusinni, Wolfgang Munchau,hjá FT hefur miklar áhyggjur af framtíð myntsamstarfsins. 

Evran: Það er nær öruggt að næsta stig kreppunnar mun snúa að fjárlagahalla og slæmri skuldastöðu aðildarríkjanna (11 af 16 evrulöndunum skulda meira en 60% af VLF). Hvernig ætla evrulöndin að fjármagna fjárlagahallann og fleyta skuldunum áfram? Það er deginum ljósara að Írar, Portúgal, Spánn, Ítalía og Grikkland munu ekki skuldsetja sig skv. kjörunum sem þeim bjóðast nú á lánamörkuðum. Markaðirnir eru í raun lokaðir og öll löndin eru á athugunarlista lánshæfisfyrirtækjanna með neikvæðum horfum. Áður fyrr hefðu þessi lönd einfaldlega látið seðlabankann fjármagna hallann og eftirlátið verðbólgunni að éta upp ósjálfbæru skuldirnar (eins og BNA, Japan og Bretland eru nú að gera). Til þessa ráðs geta evrulöndin ekki gripið nú. Af þessum sökum standa þessar þjóðir frammi fyrir skulda-verðhjöðnun, sem þýðir hækkandi raunvexti og vítahring minnkandi eftirspurnar. 

Viðbrögð ESB hafa einkennst af aðgerðarleysi. Vonin er að hagvöxtur í heiminum fari aftur á fullt innan skamms og drífi þannig áfram útflutning í Þýskalandi og Austur Evrópu. Eins og sakir standa eru þetta í besta falli óskhyggja: Í febrúar sl. drógust pantanir eftir útflutningsvörum ESB saman um nær 40% á ársgrundvelli. Þetta er langmesti samdráttur sem mælst hefur og er þó kreppan mikla talin með. Til að mæta þessum erfiðleikum verður Sambandið að breytast t.d. koma á fót skuldabréfamarkaði og jafnvel fjármálaráðuneyti sem geti innheimt samevrópska skatta af þegnum sambandsins. Ef ekkert verður að gert er raunveruleg hætta á að samstarfið flosni upp. Öllum er ljóst að núverandi stefna mun að óbreyttu leiða til skipbrots - Eitthvað róttækt verður að gerast, ef afleiðingarnar eiga ekki að verða dramatískar.

Milton Friedman sagði eitt sinn að evran væri stærsta hagfræðitilraunin sem hefði verið gerð í heiminum. Síðustu tíu ár hafa vissulega gengið ágætlega og evrulöndin eiga heiður skilinn fyrir að þora út í þessa tilraun, en ekki má gleyma því að áratugurinn var mesta hagvaxtarskeið sem heimurinn hefur gengið í gegnum. Góðærið er að baki og nú mun fyrst reyna á. Warren Buffet sagði eitt sinn að þegar fjarar út þá komi í ljós hverjir eru sundskýlum og hverjir ekki. Ættum við ekki að bíða í fáein ár og athuga hvernig Sambandið er í stakk búið til að takast á við erfiðleika. Ég skal glaður éta ofan í mig þessar áhyggjur ef Sambandið reddar málunum og allt fellur í ljúfa löð.

Óvissa þýðir áhætta og nú þegar óvissan í ESB hefur aldrei verið meiri hefur áhættan sömuleiðis aldrei verið meiri. Allir þeir kostir sem Hallgrímur telur upp gætu auðveldlega orðið að engu innan eins árs. Ég er í sjálfu sér ekki á móti áhættu. - ef menn þola tapið er hún hið besta mál - en maður leggur ekki allt undir í áhættusömu veðmáli. Við ættum þó að vera búin að læra þá lexíu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábær grein! En hvað ætlar ESB að gera? Eru þeir ekkert að gera eins fram kemur í greininni eða er stefnan núna að hvert land á að sjá um sig sjálft. Sagði ekki Merkel um daginn að það mikilvægasta að öllu núna væri að bjarga þýskum bönkum og draga sig frá ESB?

Brynhildur Einarsdóttir (IP-tala skráð) 2.5.2009 kl. 11:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband