Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009
Hræsni Samfylkingarinnar gagnvart eignarréttinum
Miðvikudagur, 20.5.2009
Á sama tíma og ríkisstjórnin ræðst í grímulausa eignarupptöku hjá einni af undirstöðuatvinnugrein íslenska hagkerfisins, skrifar viðskiptaráðherra:
Ég verð hins vegar því miður að hryggja þig [Jón Baldvin] með því að ríkið á ekki kost á því að undanþiggja vont fólk frá eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Það kemur í veg fyrir að hægt sé að gera eignir þess upptækar án þess að reikningurinn lendi á ríkinu. (Sjá hér)
Þetta eru rök Gylfa fyrir því að ekki sé hægt að ráðast í niðurfellingu skulda. Vonda fólkið sem hann vísar til eru spákaupmennirnir sem eiga stóran hluta af húsnæðislánum bankanna.
Það er ekki hægt að skilja stefnu Samfylkingarinnar nema á þann veg að þar á bæ setji menn alþjóðlega fjármagsmarkaði skörinni hærra en sjávarútveginn. Þetta er í samræmi við "alþjóðahyggju" flokksins sem að undanförnu er farin að líkjast æ meira andstöðu við allt það sem innlent er.
Það voru alþjóðlegir fjármagnsmarkaðir sem öðru fremur eru ábyrgir fyrir fjármálahruninu hér á landi og í heiminum öllum. Engu að síður eru það eignir sjávarútvegsins og heimilanna sem gera á upptækar. Allt í nafni þess að ekki megi styggja fjármagsmarkaði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvers vegna almennar aðgerðir fyrir heimilinn
Laugardagur, 9.5.2009
Mikið er nú rætt um aðgerðir, eða réttara sagt aðgerðaleysi, ríkisstjórnarinnar í málefnum heimilanna. Auðvita er mönnum er heitt í hamsi og nú hafa einhverjir staðið upp og byrjað að mótmæla. Þetta eru merkileg mótmæli frá mínum bæjardyrum séð; þrátt fyrir eðlislægt ónæmi fyrir hópefli og fjöldasamkomum þá gæti ég vel hugsað mér að mótmæla óréttlætinu í lánaviðskiptum hér á landi.
Byrjum á verðtryggingunni.
Grundvallarregla í heilbrigðum lánaviðskiptum er að hafa tekjur og skuldin séu í sama gjaldeyri. Áhættan sem felst í gengissveiflunum þegar þessi regla er brotin þýðir einfaldlega að slík lán eru stórhættuleg. Íslendingar og margar þjóðir Austur Evrópu hafa nýverið fengið sársaukafulla kennslustund í þessu grundvallaratriði, sömu kennslustundina og Rússland, mörg ríki Suð-Austur Asíu, Mexíkó og Argentína og fleiri þjóðir hafa gengið í gegnum síðastliðna tvo áratugi.
Eins undarlegt og það nú er þá stendur ríkið í vegi fyrir því að þessi regla sé höfð í hávegum hér á landi. Verðtryggingin þýðir í raun að skuldir almennings eru ekki í sama gjaldmiðli og tekjurnar. Skuldin hækkar í samræmi við verðbólgu á meðan tekjurnar standa í stað. Þetta er einfaldlega út í hött. Allir ábyrgir foreldrar myndu ráðleggja börnum sínum að fylgja reglunni samviskusamlega, en hér setur ríkið fólki stólinn fyrir dyrnar og neyðir almenning til þess að taka óábyrga og stórhættulega áhættu.
Reynsla Íslendinga af verðbólgu í gegnum árin og ótal dæmi erlendis frá, hefðu átt að kveikja á perunni hjá öllum þeim velmenntuðu og launuðu sérfræðingum sem fara með þessi mál hér á landi, en það er eins og einhverskonar fagleg blinda hafi hrjáð íslenska sérfræðinga undanfarin ár.
Ríkinu ber að gæta hagsmuni almennings en framferði hins opinbera í þessu málin jafnast á við að ríkið myndi banna öryggisbelti. Fólk þarf að vera ansi forhert ef það sér ekki í dag hversu hættulegt það er að brjóta þessa reglu. Ríkið hefur með verðtryggingunni brotið gegn almenningi og þess vegna ber því að afnema verðtrygginguna strax og leiðrétta aftur í tímann.
Flatskjásskýringin
Margar furðulegar skýringar á hruninu hafa heyrst undanfarið. Ótrúlega algengt er að persónugera vandann og skrifa hrunið á græðgi, siðspillingu og aðra skapgerðagalla. Að mínu mati er þetta meira og minna vitleysa; auðvita getur fólk verið gráðugt og siðspillt, rétt eins og það getur verið forsjált og réttsýnt, en mikilvægast er að fólk er ekki betra en umhverfið sem það tilheyrir. Það sem farið hefur fram hjá nær öllum er að umhverfið var klikkað og vitlaust. Hrunið hér á landi sem og erlendis er fyrst og fremst kerfishrun, en það kerfi sem lá fjárhagslegu umhverfi okkar til grundvallar var einfaldlega vitlaust og ýtti undir vitlausa hegðun.
Það er þó hægt að hafa skilning á því þegar fólk blótar græðgi bankastjóra og útrásarvíkinga, en þegar þessi skýring er yfirfærð á almenning keyrir vitleysan um þverbak. Þessi skýring hefur verið kölluð Flatskjásskýringin en skv. henni er hrunið afleiðing neyslugræðgi og óráðsíu almennings sem fyrir vikið á skilið að sitja í skuldasúpunni. Flatskjásskýringin hefur helst verið haldið á lofti af talsmönnum Samfylkingarinnar sem jafnframt eru helstu varðhundar verðtryggingarinnar.
Fyrir það fyrsta þá voru allar íslenskar hagtölur í góðærinu komnar út fyrir allan þjófabálk í samanburði við aðrar þjóðir (sbr. gengisskráning krónunnar, skuldastaða þjóðarbúsins, stærð fjármálakerfisins, vöruskiptahalli o.s.frv.). Ein af örfáum undartekningum frá vitleysunni voru fjármála heimilanna. Þótt skuldir almennings sem hlutfall af ráðstöfunartekjum hafi vissulega verið miklar árið 2007 voru þær engu að síður í samræmi við Bretland, Bandaríkin og Danmörk svo dæmi séu tekin.
Þá ber að athuga að skuldir heimilanna eru fyrst og fremst í íslenskum krónum (um 75%) en ekki í erlendum gjaldeyri eins og skuldir fyrirtækjanna. Að þessu leyti ættum við að vera betur stödd en t.d. margar þjóðir Austur Evrópu þar sem húsnæðisbólan var drifin áfram af lánum í evrum og svissneskum frönkum. Verðtrygging gerir það hins vegar að verkum að verðtryggð lán eru álíka hættuleg (ef ekki hættulegri) og lán í erlendri mynt. Þetta er sér-íslenskt sjálfskaparvíti og hreint og beint ótrúlegt ef við ætlum að láta fjármál heimilanna brenna upp í þessari vitleysu.
Flatskjár, gasgrill og nýir bílar eru ekki ástæða hrunsins not by a long shot. Heimlin eru fórnarlömb vitleysunnar en ekki gráðugi úlfurinn.
Af hverju aðgerðir?
Rökin sem ég hef talið upp hér að ofan eru aðallega réttlætis- og sanngirnisrök, en það má líka efnahagslegrök fyrir því að ráðist sé í almennar aðgerðir eins og niðurfellingu skulda.
Sú staðreynd að skuldir almennings eru íslenskum krónum gerir það að verkum að hið opinbera hefur mun meiri möguleika á að endurskipuleggja skuldastöðu heimilanna heldur en fyrirtækjanna. Ríkið eða seðlabankinn (eða ríki sérfræðinganna réttara sagt) getur t.d. prentað krónur til þess að kaupa íslensku húsnæðisbréfin af Íbúðalánasjóði, bönkunum og lífeyrissjóðunum.
Þegar hagkerfi standa frammi fyrir jafn gríðarlegum samdrætti og það íslenska gerir nú er það viðurkennd hagfræði að beita ríkinu til þess að halda uppi eftirspurn í hagkerfinu. Venjulega er þetta gert annað hvort með mótvægisaðgerðum ríkið ræðist í (atvinnuskapandi) fjárfestingar og viðhaldsaðgerðir eða skattalækkunum. Eins skrítið og það nú er þá hefur ekkert af þessu verið í umræðunni hér á landi. Aðalástæðan er sú að skuldirnar sem lenda á ríkinu vegna bankahrunsins eru svo miklar að slíkar aðgerðir eru ekki taldar mögulegar (venjulega er þessar leiðir sagðar lokaðar þeim þjóðum sem skulda meir en 60% af VLF).
Niðurfærsla skulda gerir í raun sama gagn. Þ.e. heimilin munu hafa meira milli handanna og þannig helst eftirspurnin í hagkerfinu uppi. Hér er gott að hafa í huga að einkaneysla stendur fyrir 54% af landsframleiðslu Íslands og því er til mikils að vinna. Það er til lítils að rembast við að halda fyrirtækjunum á lofti með endalausum sértækum aðgerðum og fyrirgreiðslum þegar rekstrargrundvöllurinn eftirspurnin er horfin.
Meira síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Stærsti ókostur ESB: Óvissa
Föstudagur, 1.5.2009
Rakst á þetta ágæta framtak á bloggvafri mínu um daginn. Eyjubloggarinn Hallgrímur Óskarsson hefur tekið saman lista um kosti og galla ESB aðildar og í athugasemdarkerfinu hafa vaknað ágætis rökræður um flokkunina.
Í fljóti bragði sýnist mér listinn endurspegla ágætlega helstu atriðin sem haldið er á lofti í umræðunni um ESB. Eitt fannst mér þó vanta tilfinnanlega, en það er atriðið sem mér finnst skipta mestu máli í spurningunni um hvort við eigum að sækja um aðild í dag.
Fyrstu fjórir kostir ESB (af 10 kostum) sem Hallgrímur telur upp eru eftirfarandi:
1. Bætir ímynd Íslands erlendis um traust og stöðugleika
2. Stöðugra efnahagsumhverfi, lægri vextir og engar verðtryggingar
3. Stöðugur gjaldmiðill (evran) - Ekki hægt að "ráðast" á hann. Lægri myntkostnaður
4. Góðar líkur á lægra og stöðugra verðlagi vegna lægri vaxta og stöðugri efnahags
Áður en lengra er haldið þá tek ég fram að ég er mjög skeptískur gagnvart því sem venjulega er kallað "kalt hagsmunamat". Menn gleyma iðulega hversu gríðarlegar takmarkanir eru á útreikningum á kostum og göllum. Fyrir það fyrsta veit enginn nákvæmlega hvaða verðmæti eiga að liggja matinu til grundvallar; eru það peningar og nytjar eða lífsgæði og hamingja (og hvað nákvæmlega merkja þessi hugtök)? Mannheimar eru líka ótrúlega flókið skipulag sem við skiljum ekki nema að mjög litlu leyti - mjög lítil breyting getur haft miklar og ófyrirsjáanlegar afleiðingar o.s.frv.
Óvissan er venjulega miklu meiri en sérfræðingar láta í veðri vaka þegar þeir kynna hagsmunaútreikninga sína í línu- og súluritum. Það er þægilegt og veitir öryggiskennd að hafa tölur í hendi og telja sig þar með skilja heiminn, en oftar en ekki er fólk að blekkja sig og skapa falskt öryggi. Ef einhver lexía er fólgin í hruni fjármálakerfisins þá er hún að útreikningar blekkja.
Hagsmunaútreikningar, sér í lagi hagfræðirannsóknir, eru líka því marki brenndir að þeir gera ráð fyrir stöðugum heimi og taka lítið tillit til breytinga í tíma. Maðurinn lærir af reynslunni og gerir ráð fyrir að það sem gerðist í gær og fyrradag muni gerast aftur á morgun. En einn daginn gerist eitthvað óvænt og reglan fellur um sjálfa sig. Hrun fjármálakerfisins er einmitt slíkur dagur. Eftir lengsta hagvaxtarskeið sögunnar blasir við meiri samdráttur en elstu menn muna - og hafa þeir nú upplifað ýmislegt um dagana.
Sagan segir okkur að slíkar niðursveiflur hafa í för með sér miklar breytingar á samfélaginu og óvissan er því meiri en áður. Á fáum stöðum er þetta jafn augljóst og í Evrópu. Kostirnir sem Hallgrímur telur upp eru vissulega til staðar þegar menn bera saman Ísland og Evrópusambandið síðastliðin ár (raunlaun hækkuðu miklu hraðar hér árin á undan) að ég tali ekki um síðastliðið hálft ár. En þetta tímabil er aðeins lítið augnablik í sögunni. Óvissan blasir við þegar við horfum fram veginn.
Hér eru tveir stærstu þættirnir sem hvað mest óvissa ríkir um í ESB:
Bankakerfið: Fjármálahrunið hófst í Bandaríkjunum og margir álíta því að vandræði bankakerfisins séu mest þar. Þetta er mikill misskilningur. Hlutdeild evrópska bankakerfisins í landsframleiðslunni hefur stækkað meira en hlutdeild bandaríska bankakerfisins. Skuldastaða evrópska bankakerfisins er tvöfalt verri en í BNA þegar miðað er við gírunarhlutföll (leverage) (ESB 1:61, BNA 1:30). Efnahagsreikningur evrópskra banka er að minnsta kosti jafn illa útleikinn og sá bandaríski vegna eitraðra veða og útlána. Það sem verra er, ESB bankarnir hafa ekki mætt tapinu nema að mjög litlu leyti (17%) á meðan BNA bankarnir eru langt komnir í hreinsuninni.
Skv. IMF voru bankar BNA búnir að afskrifa 510 milljarða dollara í árslok 2008 á meðan ESB bankar afskrifuðu 154 milljarða. Á næsta ári áætlar IMF að BNA bankar þurfi að afskrifa 550 milljarða árið 2009 og ESB bankar 750 milljarða (tölurnar eru miklu verri ef bresku bankarnir eru teknir með í úrteikningin fyrir ESB).
Ólíkt BNA er engin áætlun til í ESB um hvernig á að bregðast við þessu tapi. Starfsemi bankanna þvert á landamæri ESB skapa gríðarleg pólitísk vandræði (eins og Íslendingar þekkja þjóða best, sbr. Icesave) og flækir málið óendalega mikið. Þessi óvissa hefur gert það að verkum að hinn gallharði evru- og Evrópusinni, Wolfgang Munchau,hjá FT hefur miklar áhyggjur af framtíð myntsamstarfsins.
Evran: Það er nær öruggt að næsta stig kreppunnar mun snúa að fjárlagahalla og slæmri skuldastöðu aðildarríkjanna (11 af 16 evrulöndunum skulda meira en 60% af VLF). Hvernig ætla evrulöndin að fjármagna fjárlagahallann og fleyta skuldunum áfram? Það er deginum ljósara að Írar, Portúgal, Spánn, Ítalía og Grikkland munu ekki skuldsetja sig skv. kjörunum sem þeim bjóðast nú á lánamörkuðum. Markaðirnir eru í raun lokaðir og öll löndin eru á athugunarlista lánshæfisfyrirtækjanna með neikvæðum horfum. Áður fyrr hefðu þessi lönd einfaldlega látið seðlabankann fjármagna hallann og eftirlátið verðbólgunni að éta upp ósjálfbæru skuldirnar (eins og BNA, Japan og Bretland eru nú að gera). Til þessa ráðs geta evrulöndin ekki gripið nú. Af þessum sökum standa þessar þjóðir frammi fyrir skulda-verðhjöðnun, sem þýðir hækkandi raunvexti og vítahring minnkandi eftirspurnar.
Viðbrögð ESB hafa einkennst af aðgerðarleysi. Vonin er að hagvöxtur í heiminum fari aftur á fullt innan skamms og drífi þannig áfram útflutning í Þýskalandi og Austur Evrópu. Eins og sakir standa eru þetta í besta falli óskhyggja: Í febrúar sl. drógust pantanir eftir útflutningsvörum ESB saman um nær 40% á ársgrundvelli. Þetta er langmesti samdráttur sem mælst hefur og er þó kreppan mikla talin með. Til að mæta þessum erfiðleikum verður Sambandið að breytast t.d. koma á fót skuldabréfamarkaði og jafnvel fjármálaráðuneyti sem geti innheimt samevrópska skatta af þegnum sambandsins. Ef ekkert verður að gert er raunveruleg hætta á að samstarfið flosni upp. Öllum er ljóst að núverandi stefna mun að óbreyttu leiða til skipbrots - Eitthvað róttækt verður að gerast, ef afleiðingarnar eiga ekki að verða dramatískar.
Milton Friedman sagði eitt sinn að evran væri stærsta hagfræðitilraunin sem hefði verið gerð í heiminum. Síðustu tíu ár hafa vissulega gengið ágætlega og evrulöndin eiga heiður skilinn fyrir að þora út í þessa tilraun, en ekki má gleyma því að áratugurinn var mesta hagvaxtarskeið sem heimurinn hefur gengið í gegnum. Góðærið er að baki og nú mun fyrst reyna á. Warren Buffet sagði eitt sinn að þegar fjarar út þá komi í ljós hverjir eru sundskýlum og hverjir ekki. Ættum við ekki að bíða í fáein ár og athuga hvernig Sambandið er í stakk búið til að takast á við erfiðleika. Ég skal glaður éta ofan í mig þessar áhyggjur ef Sambandið reddar málunum og allt fellur í ljúfa löð.
Óvissa þýðir áhætta og nú þegar óvissan í ESB hefur aldrei verið meiri hefur áhættan sömuleiðis aldrei verið meiri. Allir þeir kostir sem Hallgrímur telur upp gætu auðveldlega orðið að engu innan eins árs. Ég er í sjálfu sér ekki á móti áhættu. - ef menn þola tapið er hún hið besta mál - en maður leggur ekki allt undir í áhættusömu veðmáli. Við ættum þó að vera búin að læra þá lexíu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)