Vonarneisti - á dauða mínum átti ég von en . . .
Föstudagur, 24.4.2009
Greinin eftir Jón G. Jónsson í Morgunblaðinu í dag (gæðabloggarinn Marinó birtir hana að mestu á síðunni sinni) er fyrsti vonarneistinn sem ég hef rekist á að undanförnu.
Reyndar eru skilaboðin í greininn ekki beint uppörvandi. Jón staðfestir undir rós grun margra, þ.e. núverandi áætlun um nýju bankana er uppskrift að nýrri bankakreppu. Kreppan sem við glímum við svipi mun meira til Indónesíu árið 1998 en kreppunnar í Svíðþjóð árið 1992, þ.e. væntanlegt útlánatap gæti numið 80%.
Vissulega vondar fréttir og ef þetta mat er rétt er ljóst að nýju bankarnir verða andvana fæddir. Hann bendir líka á þessar áhyggjur eru ekki tilefnislaus bölsýni heldur eru fjármálamarkaðir sömu skoðunnar. "S&P segir að hætta sé á lækkun ef kostnaður við endurreisn bankanna verði of mikill. Því miður eru alþjóðlegir lánsfjármarkaðir svartsýnir á horfur hér og skuldatryggingarálag ríkisins svipað þeim sem eru með mun lægra lánshæfismat en við," skrifar Jón.
En svo kemur þetta: "Ekkert land í heiminum hefur jafnmikil tækifæri til að láta aðra kosta endurreisn sína, en þá verða nýju bankarnir að verða minni," og þetta er vonarneistinn langþráði.
Jón leggur til að nýju bankarnir verði stofnaðir í utanum innlend innlán eða 1.300 milljarða í stað þess að íslenska lánasafnið verði tekið yfir á helmings afslætti (2.500 milljarðar). Stórhluti íslensku lánanna verði skilin eftir í gömlu bönkunum og um eignaumsýslufélag stofnað til þess að greiða úr gjaldþrotaflækjunni.
Freistivandinn og ábyrgð ríkisins
þá hnaut ég líka sérstaklega um þetta í grein Jóns: "Erlendir kröfuhafar munu bera stóran hluta af afskriftum skulda íslenskra fyrirtækja. Sem fagfjárfestar eiga þeir líka að gera það frekar en íslenskir skattborgarar. Þeir voru oft varaðir við íslensku bönkunum en lánuðu þeim samt á betri kjörum en þeir gátu fengið á skuldatryggingamarkaði. Við berum hins vegar siðferðislega skyldu gagnvart þeim. Við vitum ekki hvort eignum hefur verið skotið undan en við skuldum alþjóðlegum fjárfestum að gera allt til að endurheimta þær og færa þeim."
Ástæða kreppunar hefur að stórum hluta verið rakin til svokallaðs freisti-vanda (e. moral hazard) sem felst í því að ávinningur og áhættu er vitlaust skipt í fjármálakerfinu, sbr. bankastjórarnir nutu ávaxtanna af hækkun hlutabréfa í góðærinu en almenningur borgar brúsann þegar bankarnir hrundu.
Í umræðunni síðastliðna mánuði hefur ríkt óskiljanleg sátt meðal pólitíkusa um að ríkið/almenningur beri að axla ábyrgð og þungar byrðar vegna bankahrunsins. Eins skrítið og það nú er þá hafa íslenskir kratar aðallega haldið þessari skoðun á lofti. Enginn viriðist hafa hugsað þetta til enda. Með því að gangast í ábyrgðir á skuldum bankanna þá erum við að viðhalda freistivandanum í kerfinu - vitleysunni sem orsakaði fjármálakreppuna til að byrja með.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.