Hræsni Samfylkingarinnar gagnvart eignarréttinum

Á sama tíma og ríkisstjórnin ræðst í grímulausa eignarupptöku hjá einni af undirstöðuatvinnugrein íslenska hagkerfisins, skrifar viðskiptaráðherra:

Ég verð hins vegar því miður að hryggja þig [Jón Baldvin] með því að ríkið á ekki kost á því að undanþiggja vont fólk frá eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Það kemur í veg fyrir að hægt sé að gera eignir þess upptækar án þess að reikningurinn lendi á ríkinu. (Sjá hér)

Þetta eru rök Gylfa fyrir því að ekki sé hægt að ráðast í niðurfellingu skulda. Vonda fólkið sem hann vísar til eru spákaupmennirnir sem eiga stóran hluta af húsnæðislánum bankanna. 

Það er ekki hægt að skilja stefnu Samfylkingarinnar nema á þann veg að þar á bæ setji menn alþjóðlega fjármagsmarkaði skörinni hærra en sjávarútveginn. Þetta er í samræmi við "alþjóðahyggju" flokksins sem að undanförnu er farin að líkjast æ meira andstöðu við allt það sem innlent er. 

Það voru alþjóðlegir fjármagnsmarkaðir sem öðru fremur eru ábyrgir fyrir fjármálahruninu hér á landi og í heiminum öllum. Engu að síður eru það eignir sjávarútvegsins og heimilanna sem gera á upptækar. Allt í nafni þess að ekki megi styggja fjármagsmarkaði.

 


Hvers vegna almennar aðgerðir fyrir heimilinn

Mikið er nú rætt um aðgerðir, eða réttara sagt aðgerðaleysi, ríkisstjórnarinnar í málefnum heimilanna. Auðvita er mönnum er heitt í hamsi og nú hafa einhverjir staðið upp og byrjað að mótmæla. Þetta eru merkileg mótmæli frá mínum bæjardyrum séð; þrátt fyrir eðlislægt ónæmi fyrir hópefli og fjöldasamkomum þá gæti ég vel hugsað mér að mótmæla óréttlætinu í lánaviðskiptum hér á landi.

Byrjum á verðtryggingunni.

Grundvallarregla í heilbrigðum lánaviðskiptum er að hafa tekjur og skuldin séu í sama gjaldeyri. Áhættan sem felst í gengissveiflunum þegar þessi regla er brotin þýðir einfaldlega að slík lán eru stórhættuleg. Íslendingar og margar þjóðir Austur Evrópu hafa nýverið fengið sársaukafulla kennslustund í þessu grundvallaratriði, sömu kennslustundina og Rússland, mörg ríki Suð-Austur Asíu, Mexíkó og Argentína og fleiri þjóðir hafa gengið í gegnum síðastliðna tvo áratugi.  

Eins undarlegt og það nú er þá stendur ríkið í vegi fyrir því að þessi regla sé höfð í hávegum hér á landi. Verðtryggingin þýðir í raun að skuldir almennings eru ekki í sama gjaldmiðli og tekjurnar. Skuldin hækkar í samræmi við verðbólgu á meðan tekjurnar standa í stað. Þetta er einfaldlega út í hött. Allir ábyrgir foreldrar myndu ráðleggja börnum sínum að fylgja reglunni samviskusamlega, en hér setur ríkið fólki stólinn fyrir dyrnar og neyðir almenning til þess að taka óábyrga og stórhættulega áhættu.

Reynsla Íslendinga af verðbólgu í gegnum árin og ótal dæmi erlendis frá, hefðu átt að kveikja á perunni hjá öllum þeim velmenntuðu og launuðu sérfræðingum sem fara með þessi mál hér á landi, en það er eins og einhverskonar “fagleg blinda” hafi hrjáð íslenska sérfræðinga undanfarin ár.

Ríkinu ber að gæta hagsmuni almennings en framferði hins opinbera í þessu málin jafnast á við að ríkið myndi banna öryggisbelti. Fólk þarf að vera ansi forhert ef það sér ekki í dag hversu hættulegt það er að brjóta þessa reglu. Ríkið hefur með verðtryggingunni brotið gegn almenningi og þess vegna ber því að afnema verðtrygginguna strax og leiðrétta aftur í tímann.

“Flatskjásskýringin”

Margar furðulegar skýringar á hruninu hafa heyrst undanfarið. Ótrúlega algengt er að persónugera vandann og skrifa hrunið á græðgi, siðspillingu og aðra skapgerðagalla. Að mínu mati er þetta meira og minna vitleysa; auðvita getur fólk verið gráðugt og siðspillt, rétt eins og það getur verið forsjált og réttsýnt, en mikilvægast er að fólk er ekki betra en umhverfið sem það tilheyrir. Það sem farið hefur fram hjá nær öllum er að umhverfið var klikkað og vitlaust. Hrunið hér á landi sem og erlendis er fyrst og fremst kerfishrun, en það kerfi sem lá fjárhagslegu umhverfi okkar til grundvallar var einfaldlega vitlaust og ýtti undir vitlausa hegðun.

Það er þó hægt að hafa skilning á því þegar fólk blótar græðgi bankastjóra og útrásarvíkinga, en þegar þessi skýring er yfirfærð á almenning keyrir vitleysan um þverbak. Þessi skýring hefur verið kölluð “Flatskjásskýringin” en skv. henni er hrunið afleiðing neyslugræðgi og óráðsíu almennings sem fyrir vikið á skilið að sitja í skuldasúpunni. Flatskjásskýringin hefur helst verið haldið á lofti af talsmönnum Samfylkingarinnar sem jafnframt eru helstu varðhundar verðtryggingarinnar.

Fyrir það fyrsta þá voru allar íslenskar hagtölur í góðærinu komnar út fyrir allan þjófabálk í samanburði við aðrar þjóðir (sbr. gengisskráning krónunnar, skuldastaða þjóðarbúsins, stærð fjármálakerfisins, vöruskiptahalli o.s.frv.). Ein af örfáum undartekningum frá vitleysunni voru fjármála heimilanna. Þótt skuldir almennings sem hlutfall af ráðstöfunartekjum hafi vissulega verið miklar árið 2007 voru þær engu að síður í samræmi við Bretland, Bandaríkin og Danmörk svo dæmi séu tekin.

Þá ber að athuga að skuldir heimilanna eru fyrst og fremst í íslenskum krónum (um 75%) en ekki í erlendum gjaldeyri eins og skuldir fyrirtækjanna. Að þessu leyti ættum við að vera betur stödd en t.d. margar þjóðir Austur Evrópu þar sem húsnæðisbólan var drifin áfram af lánum í evrum og svissneskum frönkum. Verðtrygging gerir það hins vegar að verkum að verðtryggð lán eru álíka hættuleg (ef ekki hættulegri) og lán í erlendri mynt.  Þetta er sér-íslenskt sjálfskaparvíti og hreint og beint ótrúlegt ef við ætlum að láta fjármál heimilanna brenna upp í þessari vitleysu. 

Flatskjár, gasgrill og nýir bílar eru ekki ástæða hrunsins – not by a long shot. Heimlin eru fórnarlömb vitleysunnar en ekki gráðugi úlfurinn.

Af hverju aðgerðir?

Rökin sem ég hef talið upp hér að ofan eru aðallega réttlætis- og sanngirnisrök, en það má líka efnahagslegrök fyrir því að ráðist sé í almennar aðgerðir eins og niðurfellingu skulda.
 
Sú staðreynd að skuldir almennings eru íslenskum krónum gerir það að verkum að hið opinbera hefur mun meiri möguleika á að endurskipuleggja skuldastöðu heimilanna heldur en fyrirtækjanna. Ríkið eða seðlabankinn (eða ríki sérfræðinganna réttara sagt) getur t.d. prentað krónur til þess að kaupa íslensku húsnæðisbréfin af Íbúðalánasjóði, bönkunum og lífeyrissjóðunum.

Þegar hagkerfi standa frammi fyrir jafn gríðarlegum samdrætti og það íslenska gerir nú er það viðurkennd hagfræði að beita ríkinu til þess að halda uppi eftirspurn í hagkerfinu. Venjulega er þetta gert annað hvort með mótvægisaðgerðum – ríkið ræðist í (atvinnuskapandi) fjárfestingar og viðhaldsaðgerðir – eða skattalækkunum. Eins skrítið og það nú er þá hefur ekkert af þessu verið í umræðunni hér á landi. Aðalástæðan er sú að skuldirnar sem lenda á ríkinu vegna bankahrunsins eru svo miklar að slíkar aðgerðir eru ekki taldar mögulegar (venjulega er þessar leiðir sagðar lokaðar þeim þjóðum sem skulda meir en 60% af VLF).

Niðurfærsla skulda gerir í raun sama gagn. Þ.e. heimilin munu hafa meira milli handanna og þannig helst eftirspurnin í hagkerfinu uppi. Hér er gott að hafa í huga að einkaneysla stendur fyrir 54% af landsframleiðslu Íslands og því er til mikils að vinna. Það er til lítils að rembast við að halda fyrirtækjunum á lofti með endalausum sértækum aðgerðum og fyrirgreiðslum þegar rekstrargrundvöllurinn – eftirspurnin – er horfin.

Meira síðar.


Stærsti ókostur ESB: Óvissa

Rakst á þetta ágæta framtak á bloggvafri mínu um daginn. Eyjubloggarinn Hallgrímur Óskarsson hefur tekið saman lista um kosti og galla ESB aðildar og í athugasemdarkerfinu hafa vaknað ágætis rökræður um flokkunina. 

Í fljóti bragði sýnist mér listinn endurspegla ágætlega helstu atriðin sem haldið er á lofti í umræðunni um ESB. Eitt fannst mér þó vanta tilfinnanlega, en það er atriðið sem mér finnst skipta mestu máli í spurningunni um hvort við eigum að sækja um aðild í dag.

Fyrstu fjórir kostir ESB (af 10 kostum) sem Hallgrímur telur upp eru eftirfarandi: 

1. Bætir ímynd Íslands erlendis um traust og stöðugleika

2. Stöðugra efnahagsumhverfi, lægri vextir og engar verðtryggingar

3. Stöðugur gjaldmiðill (evran) - Ekki hægt að "ráðast" á hann. Lægri myntkostnaður

4. Góðar líkur á lægra og stöðugra verðlagi vegna lægri vaxta og stöðugri efnahags

Áður en lengra er haldið þá tek ég fram að ég er mjög skeptískur gagnvart því sem venjulega er kallað "kalt hagsmunamat". Menn gleyma iðulega hversu gríðarlegar takmarkanir eru á útreikningum á kostum og göllum. Fyrir það fyrsta veit enginn nákvæmlega hvaða verðmæti eiga að liggja matinu til grundvallar; eru það peningar og nytjar eða lífsgæði og hamingja (og hvað nákvæmlega merkja þessi hugtök)? Mannheimar eru líka ótrúlega flókið skipulag sem við skiljum ekki nema að mjög litlu leyti - mjög lítil breyting getur haft miklar og ófyrirsjáanlegar afleiðingar o.s.frv.  

Óvissan er venjulega miklu meiri en sérfræðingar láta í veðri vaka þegar þeir kynna hagsmunaútreikninga sína í línu- og súluritum. Það er þægilegt og veitir öryggiskennd að hafa tölur í hendi og telja sig þar með skilja heiminn, en oftar en ekki er fólk að blekkja sig og skapa falskt öryggi. Ef einhver lexía er fólgin í hruni fjármálakerfisins þá er hún að útreikningar blekkja.

Hagsmunaútreikningar, sér í lagi hagfræðirannsóknir, eru líka því marki brenndir að þeir gera ráð fyrir stöðugum heimi og taka lítið tillit til breytinga í tíma. Maðurinn lærir af reynslunni og gerir ráð fyrir að það sem gerðist í gær og fyrradag muni gerast aftur á morgun. En einn daginn gerist eitthvað óvænt og reglan fellur um sjálfa sig. Hrun fjármálakerfisins er einmitt slíkur dagur.  Eftir lengsta hagvaxtarskeið sögunnar blasir við meiri samdráttur en elstu menn muna - og hafa þeir nú upplifað ýmislegt um dagana. 

Sagan segir okkur að slíkar niðursveiflur hafa í för með sér miklar breytingar á samfélaginu og óvissan er því meiri en áður. Á fáum stöðum er þetta jafn augljóst og í Evrópu. Kostirnir sem Hallgrímur telur upp eru vissulega til staðar þegar menn bera saman Ísland og Evrópusambandið síðastliðin ár (raunlaun hækkuðu miklu hraðar hér árin á undan) að ég tali ekki um síðastliðið hálft ár. En þetta tímabil er aðeins lítið augnablik í sögunni. Óvissan blasir við þegar við horfum fram veginn.

Hér eru tveir stærstu þættirnir sem hvað mest óvissa ríkir um í ESB: 

Bankakerfið: Fjármálahrunið hófst í Bandaríkjunum og margir álíta því að vandræði bankakerfisins séu mest þar. Þetta er mikill misskilningur. Hlutdeild evrópska bankakerfisins í landsframleiðslunni hefur stækkað meira en hlutdeild bandaríska bankakerfisins. Skuldastaða evrópska bankakerfisins er tvöfalt verri en í BNA þegar miðað er við gírunarhlutföll (leverage) (ESB 1:61, BNA 1:30). Efnahagsreikningur evrópskra banka er að minnsta kosti jafn illa útleikinn og sá bandaríski vegna eitraðra veða og útlána. Það sem verra er, ESB bankarnir hafa ekki mætt tapinu nema að mjög litlu leyti (17%) á meðan BNA bankarnir eru langt komnir í hreinsuninni.

Skv. IMF voru bankar BNA búnir að afskrifa 510 milljarða dollara í árslok 2008 á meðan ESB bankar afskrifuðu 154 milljarða. Á næsta ári áætlar IMF að BNA bankar þurfi að afskrifa 550 milljarða árið 2009 og ESB bankar 750 milljarða (tölurnar eru miklu verri ef bresku bankarnir eru teknir með í úrteikningin fyrir ESB).  

Ólíkt BNA er engin áætlun til í ESB um hvernig á að bregðast við þessu tapi. Starfsemi bankanna þvert á landamæri ESB skapa gríðarleg pólitísk vandræði (eins og Íslendingar þekkja þjóða best, sbr. Icesave) og flækir málið óendalega mikið. Þessi óvissa hefur gert það að verkum að hinn gallharði evru- og Evrópusinni, Wolfgang Munchau,hjá FT hefur miklar áhyggjur af framtíð myntsamstarfsins. 

Evran: Það er nær öruggt að næsta stig kreppunnar mun snúa að fjárlagahalla og slæmri skuldastöðu aðildarríkjanna (11 af 16 evrulöndunum skulda meira en 60% af VLF). Hvernig ætla evrulöndin að fjármagna fjárlagahallann og fleyta skuldunum áfram? Það er deginum ljósara að Írar, Portúgal, Spánn, Ítalía og Grikkland munu ekki skuldsetja sig skv. kjörunum sem þeim bjóðast nú á lánamörkuðum. Markaðirnir eru í raun lokaðir og öll löndin eru á athugunarlista lánshæfisfyrirtækjanna með neikvæðum horfum. Áður fyrr hefðu þessi lönd einfaldlega látið seðlabankann fjármagna hallann og eftirlátið verðbólgunni að éta upp ósjálfbæru skuldirnar (eins og BNA, Japan og Bretland eru nú að gera). Til þessa ráðs geta evrulöndin ekki gripið nú. Af þessum sökum standa þessar þjóðir frammi fyrir skulda-verðhjöðnun, sem þýðir hækkandi raunvexti og vítahring minnkandi eftirspurnar. 

Viðbrögð ESB hafa einkennst af aðgerðarleysi. Vonin er að hagvöxtur í heiminum fari aftur á fullt innan skamms og drífi þannig áfram útflutning í Þýskalandi og Austur Evrópu. Eins og sakir standa eru þetta í besta falli óskhyggja: Í febrúar sl. drógust pantanir eftir útflutningsvörum ESB saman um nær 40% á ársgrundvelli. Þetta er langmesti samdráttur sem mælst hefur og er þó kreppan mikla talin með. Til að mæta þessum erfiðleikum verður Sambandið að breytast t.d. koma á fót skuldabréfamarkaði og jafnvel fjármálaráðuneyti sem geti innheimt samevrópska skatta af þegnum sambandsins. Ef ekkert verður að gert er raunveruleg hætta á að samstarfið flosni upp. Öllum er ljóst að núverandi stefna mun að óbreyttu leiða til skipbrots - Eitthvað róttækt verður að gerast, ef afleiðingarnar eiga ekki að verða dramatískar.

Milton Friedman sagði eitt sinn að evran væri stærsta hagfræðitilraunin sem hefði verið gerð í heiminum. Síðustu tíu ár hafa vissulega gengið ágætlega og evrulöndin eiga heiður skilinn fyrir að þora út í þessa tilraun, en ekki má gleyma því að áratugurinn var mesta hagvaxtarskeið sem heimurinn hefur gengið í gegnum. Góðærið er að baki og nú mun fyrst reyna á. Warren Buffet sagði eitt sinn að þegar fjarar út þá komi í ljós hverjir eru sundskýlum og hverjir ekki. Ættum við ekki að bíða í fáein ár og athuga hvernig Sambandið er í stakk búið til að takast á við erfiðleika. Ég skal glaður éta ofan í mig þessar áhyggjur ef Sambandið reddar málunum og allt fellur í ljúfa löð.

Óvissa þýðir áhætta og nú þegar óvissan í ESB hefur aldrei verið meiri hefur áhættan sömuleiðis aldrei verið meiri. Allir þeir kostir sem Hallgrímur telur upp gætu auðveldlega orðið að engu innan eins árs. Ég er í sjálfu sér ekki á móti áhættu. - ef menn þola tapið er hún hið besta mál - en maður leggur ekki allt undir í áhættusömu veðmáli. Við ættum þó að vera búin að læra þá lexíu. 


Jóhanna gegn "neo-libertarianism"

Uppi hafa verið vangavaltur um enskukunnáttu forsætisráðherra. Vangavelturnar voru ekki úr lausu lofti gripnar; þegar Jóhanna ræddi loks við erlenda blaðamenn gerði hún það með aðstoð túlks. Ef einhverjir höfðu áhyggjur af tungumálakunnáttu Jóhönnu þá virðist það hins vegar hafa verið ástæðulaust. Hún virðist geta tjáð sig af ótrúlegri næmi og kunnáttu við erlendu pressuna. Í frétt Financial Times um niðurstöður kosninganna rakst ég t.d. á eftirfarandi tilvitnun: 

"“The people of Iceland are settling the score with the past, with the neo-libertarianism which has been in power here for too long,” said Ms Sigurdardottir, a 66-year-old former flight attendant who is openly gay. There is a demand for a change of values. “There is a demand for a change of values.” 

 "Neo-libertarianism!" Ég vissi ekki einu sinni að það væri til íslensk þýðing á orðinu. Hingað til hefur veri verið mjög erfitt að þýða libertarianism. Frjálshyggja er liberalism og ný-frjálshyggja er neo-liberalism. Satt að segja veit ég ekki hvernig á að þýða libertarianism. 

Þá verð ég að viðurkenna að ég vissi ekki hvað "neo-libertarianism" var þegar ég rakst á þessa tilvitnun. Hin trausa Wikipedia og google komu mér þó á sporið og neo-libertarianism virðist vera mjög afmörkuð hefð fáeinna libertarianista sem borið hafa blak af utanríkisstefnu neo-conservatista. Það var nefnilega það. 

Fyrir það fyrsta þá er libertariansimi mjög flókin hefð sem erfitt er að fella að hinum hefðbundna hægri og vinstri mælikvarða. Þannig er Noam Chomsky stundum kallaður Left-libertarian, en libertarianistar aðhyllast venjulega hugmyndir um lágmarkaðsríkið. Það er einfaldlega fráleitt að kenna valdtíma sjálfstæðisflokksins við libertarianism þar sem ríkið hefur blásið út í valdatíð Sjallanna - illu heilli.


Úff, óhugnaleg melding frá Þýskalandi

Ekki var Adam lengi í Paradís. Góða tilfinningin eftir lestur greinar Jóns G. Jónssonar varð að engu þegar ég las þetta

Stjörnublaðamaðurinn Amborse á Telegraph fjallar um þýska stjórnmálamenn og verkalýðsleiðtoga sem segja að mikil hætta sé á að upp úr sjóði og til götuátaka komi í Þýskalandi á næstu mánuðum. þetta er ekki öfga-fólk úr Die Linke sem Amborse vitnar í heldur Gesine Swann sem hefur tvisvar verið frambjóðandi SDP í forsetakosningunum og Michael Sommer sem er formaður Sambands þýskra verkalýðsfélaga (DGB). Sommers segir fjöldauppsagnir vera "stríðsyfirlýsingu við þýska verkamenn".

Úff!

Ég hef lengi furða mig á því að ekkert er fjallað um lýðræðishallan og vaxandi ókyrrð í ESB löndunum í umræðunni hér heima. Þrátt fyrir að síðastliðin ár hafi verið ein mestu góðærisár mannkynssögunnar þá er hefur óánægja meðal Evrópubúa (sérstaklega meðal verkafólks) farið hratt vaxandi. Hér má sjá ógnvekjandi tölur um hvernig hallað hefur á frjálslynd viðhorf í Sambandinu undanfarin ár. Hvað gerist í kreppunni?

 

ps. Ég mæli með að þið kíkið á þessar tölur og berið saman viðhorfin í ESB löndunum annars vegar og hins vegar í Bandaríkjunum. Af því að spurningin um ESB virðist fyrst og fremst vera Identity pólítík þá skulið þið spyrja ykkur: Hvort samsvara viðhorfin í ESB eða BNA betur mínum eigin?    


Vonarneisti - á dauða mínum átti ég von en . . .

Greinin eftir Jón G. Jónsson í Morgunblaðinu í dag (gæðabloggarinn Marinó birtir hana að mestu á síðunni sinni) er fyrsti vonarneistinn sem ég hef rekist á að undanförnu. 

Reyndar eru skilaboðin í greininn ekki beint uppörvandi. Jón staðfestir undir rós grun margra, þ.e. núverandi áætlun um nýju bankana er uppskrift að nýrri bankakreppu. Kreppan sem við glímum við svipi mun meira til Indónesíu árið 1998 en kreppunnar í Svíðþjóð árið 1992, þ.e. væntanlegt útlánatap gæti numið 80%.

Vissulega vondar fréttir og ef þetta mat er rétt er ljóst að nýju bankarnir verða andvana fæddir. Hann bendir líka á þessar áhyggjur eru ekki tilefnislaus bölsýni heldur eru fjármálamarkaðir sömu skoðunnar. "S&P segir að hætta sé á lækkun ef kostnaður við endurreisn bankanna verði of mikill. Því miður eru alþjóðlegir lánsfjármarkaðir svartsýnir á horfur hér og skuldatryggingarálag ríkisins svipað þeim sem eru með mun lægra lánshæfismat en við," skrifar Jón. 

En svo kemur þetta: "Ekkert land í heiminum hefur jafnmikil tækifæri til að láta aðra kosta endurreisn sína, en þá verða nýju bankarnir að verða minni," og þetta er vonarneistinn langþráði. 

Jón leggur til að nýju bankarnir verði stofnaðir í utanum innlend innlán eða 1.300 milljarða í stað þess að íslenska lánasafnið verði tekið yfir á helmings afslætti (2.500 milljarðar).  Stórhluti íslensku lánanna verði skilin eftir í gömlu bönkunum og um eignaumsýslufélag stofnað til þess að greiða úr gjaldþrotaflækjunni. 

Freistivandinn og ábyrgð ríkisins

þá hnaut ég líka sérstaklega um þetta í grein Jóns: "Erlendir kröfuhafar munu bera stóran hluta af afskriftum skulda íslenskra fyrirtækja. Sem fagfjárfestar eiga þeir líka að gera það frekar en íslenskir skattborgarar. Þeir voru oft varaðir við íslensku bönkunum en lánuðu þeim samt á betri kjörum en þeir gátu fengið á skuldatryggingamarkaði. Við berum hins vegar siðferðislega skyldu gagnvart þeim. Við vitum ekki hvort eignum hefur verið skotið undan en við skuldum alþjóðlegum fjárfestum að gera allt til að endurheimta þær og færa þeim."

Ástæða kreppunar hefur að stórum hluta verið rakin til svokallaðs freisti-vanda (e. moral hazard) sem felst í því að ávinningur og áhættu er vitlaust skipt í fjármálakerfinu, sbr. bankastjórarnir nutu ávaxtanna af hækkun hlutabréfa í góðærinu en almenningur borgar brúsann þegar bankarnir hrundu.

Í umræðunni síðastliðna mánuði hefur ríkt óskiljanleg sátt meðal pólitíkusa um að ríkið/almenningur beri að axla ábyrgð og þungar byrðar vegna bankahrunsins. Eins skrítið og það nú er þá hafa íslenskir kratar aðallega haldið þessari skoðun á lofti. Enginn viriðist hafa hugsað þetta til enda. Með því að gangast í ábyrgðir á skuldum bankanna þá erum við að viðhalda freistivandanum í kerfinu - vitleysunni sem orsakaði fjármálakreppuna til að byrja með.  


Af hverju mátti ekki birta skýrsluna?

Það var sem mig grunaði (sjá síðustu færslu). Bjartsýnisgreinin hans Gylfa í morgun var í besta falli blekkingaleikur. Hvernig datt honum í hug að skrifa grein um að útlitið væri bjartara en menn vildu vera láta þegar hann var ný búinn að fá þessa skýrslu í hendurnar sem segir að staðan sé mun alvarlegri en áður var talið.

Hvers vegna mátti ekki birta þessa skýrslu?

Er þetta ekki frétt? Nei, þetta er stórfrétt og mjög mikilvægar upplýsingar um stöðu íslensks atvinnulífs.

Það verður að birta þessa skýrslu ekki seinna en á morgun. Í henni eru svör við mikilvægustu spurningunum um stöðu efnahagslífsins. Hver er t.d. staða heimilanna? Hvað reikna menn með að margar fjölskyldur kikni undan skuldabyrðinni? Þessi svör munu gefa mikilvægar vísbendingar um hvers er að vænta á fasteignamarkaðinum. 

Annars á Sigmundur heiður skilinn fyrir að birta þessar upplýsingar og hugmyndir sínar um niðurfellingu skulda. Hann er hratt vaxandi stjórnmálamaður.   

 

 


mbl.is Sigmundur Davíð spáir öðru hruni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótímabær bjartsýni Gylfa - það er ekkert að óttast nema óttaleysið

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra er bjartsýnn á framhaldið í dag. Við erum komin yfir erfiðasta hjallann, aðeins eitt ár eftir af vandræðum og svo kemur betri tíð. Það hlýtur að vera gott veður á Íslandi í dag.

"Hreinar" skuldir ríkisins verði jafnvel minni en hjá nágranna ríkjum okkar, segir Gylfi. Upplýsingar um skuldastöðu ríkisins eru fyrir það fyrsta mjög á reiki og ég veit að það er auðvelt að týnast í því feni, en ég er ekki að kaupa þetta. Ekki er búið að skilja á milli gömlu og nýju bankanna en mér skilst að erlendu kröfuhafarnir sæki það stíft að fá ríkisábyrgð gegn því að þeir afskrifi hluta krafnanna. Upphaflega var lagt upp með að kaupa innlenda lánasafnið á 50% afslætti. Þetta hljómar í mín eyru eins og uppskrift að nýrri bankakreppu. Það sem nú þegar er komið fram um heimtur á lánum frá íslenskum eignarhaldsfélögum eru tölur í kringum 10%, en helmingur útlána bankanna var til eignarhaldsfélaga.

Þetta með "hreinu" skuldastöðuna hljómar líka vafasamt. Aldrei er fjallað um hreina skuldastöðu ríkja í fjölmiðlum erlendis og ég hef aldrei séð slíkan samanburð (Maastricht skilyrðin miða t.d. ekki við nettó stöðuna). Erlend skuldastaða Bandaríkjanna nálgast óðfluga 100% af VLF og þar hafa allir miklar áhyggjur af þróuninni, en aldrei hef ég heyrt menn tala um nettó stöðuna. Bandaríkjamenn eiga meiri eignir erlendis en þeir skulda (þeir eiga t.d. Írak, eitt stærsta olíusvæði heims) en aldrei hef ég heyrt ráðamenn Vestra stæra sig af jákvæðri eignastöðu landsins. Þess fyrir utan þá skuldar BNA bara í dollurum en ekki í erlendum gjaldmiðlum eins og við. Hvað máli skipta líka eignir eins og Íbúðalánasjóður, Landsvirkjun og fasteignir ríkisins í þessu samhengi? Eru þetta seljanlegar eignir? Er viðskiptavild inni í þessum reikningum? Er fyrirhuguð eignarupptaka á kvótanum gerð til þess að laga eignastöðuna á efnahagsreikning ríkisins?Smile

Hagtölur eru í sjálfum sér vafasamari en andskotinn og eins og Íslendingar þekkja þjóða best er hægt að teygja og beygja efnahagsreikninga og þjóðhagsspár út í hið óendalega. Ég er allavega langt í frá sannfærður um að allt sé í lukkunnar standi - fordæmin hræða.

Hvort er hættulegra bjarsýni eða bölsýni?

Þetta bjartsýniskast Gylfa er í samræmi við tíðarandann erlendis síðustu daga. Seðlabankastjórar og ráðamenn í BNA og ESB hafa undanfarið látið rósrauð ummæli falla um að í senn komi betri tíð. Uppáhaldsorðið í umræðunni er "green shots" en menn sjá "rótarskot" eða batamerki hér og þar í hagtölunum. Bjartsýnin stafar aðallega af því að hægt hefur á samdrættinum síðastliðnar vikur, en fyrr má nú vera: Samdrátturinn í iðnaðarframleiðslu stærstu hagkerfa heims í desember og janúar sl. var hraðari en þegar verst lét í Kreppunni miklu.

Áhrifamesti blaðamaður heims á sviði efnahagsmála (skv. elítukönnun tímaritsins Foreign Policy), diplómatíski hagfræðingurinn Martin Wolf (economic editor hjá Financial Time) skrifaði að vanda frábæra grein um málið síðastliðin þriðjudag. "Why the green shoots of recovery could yet wither".  Ólíkt AGS sem gaf það út fyrir þremur vikum að þjóðhagslegt ójafnvægi í heiminum hefði ekki orsakað kreppuna (tilviljun? engin stofnun ræður meir um þjóðhagslegt umhverfi heimsins) þá vill Martin Wolf meina að rót vandræðanna liggi þar. Hann segir að raunverulegur bati geti ekki hafist fyrr en ójafnvægið í alþjóðlegum viðskiptum lagist (það hefur ekkert batnað þrátt fyrir kreppuna) og hagkerfi heimsins gangi í gegnum "afgrírun" (de-leveraging), þ.e. skuldaeyðingu. 

Ég gleymi aldrei grein sem Martin Wolf skrifaði í febrúar 2007 um hálfu ári áður en vandræðin á lánamörkuðum fóru að gera vart um sig. Þar fjallaði hann um skuldabréfamarkaðinn og furðaði sig á litlum vaxtamun á milli áhættusamra og öruggra fjárfestinga (eins og litlum mun á lánakjörum íslensku bankanna og JP Morgan svo dæmi sé tekið). Í greininni snéri hann snilldarlega úr frægum orðum Roosvelt (það er ekkert að óttast nema óttan sjálfan) og skrifaði: Það er ekkert að óttast nema óttaleysið.

Ég veit ekki með ykkur en ég tek meira mark á hagfræðingum sem sáu vandræðin fyrir en þeim glórulausu - hvað þá hagfræðingum sem jafnframt eru stjórnmálamenn.

Við erum í ESB - það er vandinn

Samhljómur er ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar maður hlustar á stjórnmálamenn þessa dagana. Um eitt virðast þó allir sammála: Núverandi stefna í efnahagsmálum - ofurháir vextir, verðtrygging og gjaldeyrishöft - er brjálæði. 

Þrátt fyrir þessa breiðu samstöðu þá er núverandi stefna staðreynd og ekkert hefur verið gert til að breyta um kúrs. Þetta er meira en lítið skrítin staða. Seðlabankinn er ennþá á verðbólgumarkmiði þótt það sé óumdeilt að sú stefna hafi komið okkur í vandræðin. Gjaldeyrishöftin eru ekkert á förum þótt öllum sé ljóst að óréttlætið og óhagkvæmnin sem hlýst af tvöfalt skráðu gengi er ólíðandi. Um næstu mánaðarmót munu svo verðbætur leggjast ofan á húsnæðislánin þótt verðtryggingin hafi rústað fjárhag heimilanna svo að óbreyttu stefnir hér í fjöldagjaldþrot og hrun húsnæðismarkaðar. 

Hvað veldur þessari þversagnakenndu stöðu?

Auk þessa að vera sammála um óbærilega vitleysu núverandi efnhagsstefnu eru stjórnmálamenn einnig sammála um að til skamms tíma sé AGS eina leiðin úr ógöngunum (Þeir sem leyfa sér að fara út fyrir þennan ramma eru umsvifalaus dæmdir úr leik sem kverúlantar, samsæriskenningasmiðir eða eitthvað þaðan af verra). Þá er meirihluti þingmanna ríkisstjórnarflokkanna einnig þeirrar skoðunar að eina lausnin til lengri tíma sé ESB. (það er kannski til marks um takmarkaða hugsun íslenskra pólitíkusa að þeir sjá aðeins lausnir sem hægt er að skammstafa).

Þegar betur er að gáð er samband þarna á milli, þ.e. milli núverandi efnahagsstefnu (fylgispekt við AGS) og áætlana um að ganga í Evrópusambandið. Þegar við skoðum framgang mála í Evrópusambandinu blasir við að margt er líkt með stefnunni sem er lögð fyrir Ísland annars vegar og hins vegar fyrir lítil ríki innan ESB sem líka hafa orðið illa úti í fjármálakreppunni.

Hver er munurinn á Íslandi og Írlandi? Einn stafur og sex mánuðir. Þannig hljómaði brandarinn fyrir nokkrum mánuðum, en í dag eru Írar sennilega hættir að brosa því brandarinn hefur reynst sannspárri en efnahagsspár írskra stjórnvalda. Írar hafa neyðst til að þjóðnýta einn stærsta banka landsins og ört vaxandi líkur eru á því að bankakerfið í heild fari sömu leið. Húsnæðismarkaðurinn er hruninn og nú er því spáð að landsframleiðsla dragist saman um allt að 10% (þröskuldurinn sem hagfræðingar segja að skilji á milli niðursveiflu og kreppu). Írland er í vondum málum rétt eins og Ísland. Fyrir hálfu ári síðan lofaði írski forsætisráðherrann guð fyrir að Írar hefðu evru því annars væri jafn illa fyrir þeim komið og Íslendingum. Þetta gætu hins vegar auðveldlega orðið "famous last words" - allavega hefur ástandið versnað dag frá degi síðan hann lét þau falla og ekki sér fyrir endann á vandræðunum. 

Og hver hafa viðbrögð stjórnvalda (og ESB) við írsku kreppunni verið. Í síðustu viku kynnti írski fjármálaráðherrann nýtt fjárlagafrumvarp sem hlotið hefur heitið "the budget from hell". Niðurskurður er boðaður í öllum liðum; atvinnuleysisbætur til ungs fólks verða skornar niður sem og barnabætur o.s.frv. Skattar verða hækkaðir og dregið verður úr opinberum framkvæmdum. Það var nefnilega það. Á sama tíma og efnahagslífið hefur orðið fyrir stórkostlegu áfalli og fyrirséð að eftirspurn í samfélaginu muni hrynja þá ætlar ríkið að herða sultarólina og hækka skatta. Hljómar kunnuglega? Á Írlandi (auk Lettlands og PIGS-landanna) ríkir nú verðhjöðnun sem þýðir að raunvextir fara hratt hækkandi, en eins og við þekkjum hér á Íslandi þá eru háir vextir grundvallaratriði í peningastjórn skv. verðbólgumarkmiði og í ráðleggingum AGS. Hvorki Ísland né Írland mega grípa til þeirra ráða sem Bandaríkin og Bretland hafa notað til þess að ná vaxtastiginu niður. 

Sömu sögu er að segja frá Lettlandi en hvað eiga þessi þrjú ríki - Ísland, Lettland og Írland - sameiginlegt? Jú, ESB.

Þótt við séum ekki aðilar að Evrópusambandinu stefnir meirihluti þingmanna ríkisstjórnarinnar (og starfsmanna stjórnsýslunnar) þangað inn. Ef markmiðið er aðild þá verða stjórnvöld að sýna að þau séu tilbúinn að ganga undir "aga" sambandsins eða Maastricht skilyrðin svokölluðu. Ég hef átt í viðræðum við jafnaðarmenn sem segja að innganga okkur muni krefjast fórna (sjá jbh.is). Hvernig er er hægt að skýra linkindina í Icesave-deilunni öðruvísi en að þar hafi stjórnvöld ekki vilja styggja ESB og eyðileggja möguleika okkar á skjótri inngöngu. Við erum ekki enn gengin í Evrópusambandið en við fylgjum stefnu Evrópusambandsins.    

Hvað er athugavert við stefnu ESB? Ef menn vilja finna fordæmi í sögunni um fjármálakreppu eins og þá sem við glímum nú við verða menn að fara aftur til Kreppunnar miklu. Skv. hagfræðinginum Irvin Fisher (þetta er líka ríkjandi skoðun meðal nútíma hagfræðinga eins og Ben Bernanke) þá var Kreppan mikla afleiðing svokallaðrar skuldaverðhjöðnunar (e. debt deflation) sem orsakaði vítahring minnkandi eftirspurnar í efahagskerfinu. Það sama er að gerast í Evrópusambandinu í dag. (Ef menn vilja lesa meira um þetta þá bendi ég vinstrimönnum á blogg Paul Krugmans á NYT og hægrimönnum á pistla Ambrose Evans-Pritchard á Telegraph). Óbilandi trú Evrópska Seðlabankans á verðbólgumarkmiðið minnir óþægilega mikið á þrákelkni seðlabanka Evrópu við gullfótinn í árdaga kreppunnar miklu. 

Þorsteinn Pálsson, Benedikt Jóhannesson, Ólafur Stephensen og Sigurður Már Jónsson eru allir á einu máli um að hér stefni að óbreyttu í annað hrun. Og ég er þeim fullkomlega sammála; þegar gríðarlegur samdráttur í fjárfestingum atvinnulífsins, einkaneyslu heimilanna og útgjöldum ríkisins á sér stað samtímis þýðir það ekkert annað en algjört hrun eftirspurnar í hagkerfinu. Þessir þungavigtarmenn telja hins vegar allir að "eina" lausnin felist í inngöngu í ESB. Hér er ég fullkomlega ósammála, enda ákveðin þversögn fólgin í þessari skoðun: Við fylgjum í einu og öllu stefnu ESB og það er hún sem felur í sér annað og meira hrun.

Þvert á móti er verkefnið að komast út úr Evrópusambandinu og þeirri stórhættulegu efnahagsstefnu sem þar er nú rekin. Við eigum frekar að horfa vestur um haf til ríkisstjórnar Obama sem beitir nú öllum tiltækum ráðum til þess að ná niður vöxtum og halda uppi eftirspurn í hagkerfinu. Við eigum að lækka vexti, láta seðlabankann fjármagna fjárlagahallann (ekki taka erlend lán) og kaupa skuldir í íslenskum krónum til afskrifta. Leyfa genginu að falla og finna sinn botn og efla innlenda framleiðslu. Þær þjóðir sem komu best út úr Kreppunni miklu voru þær sem viðurkenndu vandann, sögðu skilið við úrelta hugmyndafræði og létu gjaldmiðla sína falla. Íslendingar voru ekki svo lánsamir þá og við megum ekki endurtaka sömu mistökin


Enn eitt bloggið í mannhafið

Nú get ég greinilega ekki lengur orða bundist og er hér mættur.

Reyndar stofna ég þetta blogg aðallega af tillitsemi við náungann. Í hálft annað ár hef ég meira og minna verið erlendis og ekki haft mörg tækifæri ti þess að létta á sálartetrinu í heitapottinum eða kaffihúsum. Þetta hefur leitt til þess að ég er farinn að kommenta í tíma og ótíma á blogg náungans og þá venjulega þegar mér er misboðið og ætti kannski frekar að anda djúpt. Alla jafnan reyni ég að ganga út frá þeirri reglu að það eigi að láta fólk í friði og því ætla ég framvegis að amast út í menn og málefni hérna heima hjá mér. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband